
Kristín Sigurjónsdóttir leikur á fiðlu. Hún er fædd og uppalin í Hvalfjarðarsveit og hefur alltaf verið á kafi í músík. Kristín hefur starfað í hinum ýmsu hljómsveitum og verkefnum, meðal annars með kirkjukór Akraneskirkju. Kristín er hjúkrunarfræðingur og starfar á LSH.

Helgi Þór Ingason er Reykvíkingur og leikur á harmoniku, en píanó er reyndar hans hljóðfæri. Helgi Þór nam píanóleik hjá Jóni Stefánssyni og í Jassdeild Tónlistarskóla FÍH. Hann hefur starfað með nokkrum hljómsveitum, nefna má hljómsveitina Jassgauka en lengst af starfaði hann með South River Band sem hefur gefið út sex hljómplötur. Geisladiskurinn Gamla hverfið, með tónlist og textum Helga Þórs, kom út 2013. Helgi Þór er verkfræðingur að mennt og prófessor við Háskólann í Reykjavík.

Magni Friðrik Gunnarsson er Dalvíkingur búsettur í Reyjavík og leikur á gítar og mandólín. Hann hefur leikið í ýmsum sveitum í gegnum tíðina og sungið í kórum; lék um tíma með South River Band og var ásamt Jóni einn af meðlimum poppsveitarinnar Stuðkompanísins á seinni hluta níunda áratugarins. Fyrir utan tónlistina er Magni menntaður blikksmiður og starfar sem slíkur.

Jón Kjartan Ingólfsson er Dalvíkingur, búsettur í Reykjavík og leikur á kontrabassa og gítar. Hann hefur starfað með fleiri hljómsveitum en hann kærir sig um að muna, hann lék um tíma með South River Band og stofnaði ásamt fleirum popphljómsveitina Stuðkompaníð fyrir margt löngu. Jón Kjartan er, auk þess að vera tónlistamaður; hljóðmaður og verslunarmaður.
Recent Comments