Sagan

Þjóðlagasveitin Kólga var stofnuð haustið 2014. Hana skipa þau Kristín Sigurjónsdóttir á fiðlu, Magni Friðrik Gunnarsson á gítar og mandolín, Jón Kjartan Ingólfsson á kontrabassa og Helgi Þór Ingason á harmoniku. Aðalsmerki sveitarinnar er þó söngur. Allir hafa reynslu af kórsöng og skiptast á að leiða sönginn, auk þess sem töluvert er lagt upp úr raddsetningum. Kólga leikur þjóðlagaskotna tónlist sem í má finna áhrif frá Írlandi, Austur Evrópu, Skandinavíu og Bandaríkjunum.

Á efnisskrá er tónlist úr ýmsum áttum, en um helmingur hennar er frumsaminn. Allir textar eru á íslensku og langflestir eru þeir frumsamdir og úr smiðju sveitarinnar. Hljómsveitin Kólga starfar af ástríðu og áhuga á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi. Sveitin æfir að jafnaði vikulega en nýtir þau tækifæri sem gefast til að koma fram opinberlega. Frá upphafi hefur Kólga komið víða fram, m.a. á Reykjavik Folk Festival, á Kaffi Rósenberg (meðan sá staður var og hét), á Græna hattinum á Akureyri, á Húsavík, Dalvík, í Hveragerði, á Stokkseyri, á Fljótsdalshéraði – svo fáein dæmi séu tekin.

Sveitin hefur reglulega komið fram á kvöldvökum Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði og vorið 2019 kom sveitin fram ásamt Hauki Inga Jónassyni guðfræðingi, á eftirminnilegum tónleikum í Innra-Hólmskirkju undir yfirskriftinni “Glaðlegir söngvar um dauðann.”